YFIRDRIFNAR ÁHYGGJUR

Þrálátar, yfirdrifnar áhyggjur af ýmsum málefnum (svo sem fjárhag, framtíð, samskiptum, velferð ættingja eða málefnum þar sem einhver óvissa ríkir) sem fólk á erfitt með að láta af og valda einkennum á borð við eirðarleysi, vöðvapennu, verkjum, pirringi, svefnturflunum og þreytu kallast almenn kvíðaröskun. Þetta eru áhyggjur af ýmsu sem gæti átt sér stað í framtíðinni eða af minniháttar atriðum eða ákvarðanatöku, t.d. hvaða gallabuxur eigi að kaupa. Með áhyggjum er átt við röð neikvæðra hugsana, efasemda eða mynda í huganum sem oft snúast um það sem gæti farið úrskeiðis í framtíðinni. Oft eru áhyggjurnar meiri þegar fólk fær næði til að hugsa, eins og þegar fólk er að reyna að slaka á eða sofna. Áhyggjurnar vinda gjarnan upp á sig þannig að hver hugsun sem skýtur upp kollinum vekur aðra enn ógnvænlegri og svo koll af kolli.  Flestir í þessum hópi greina frá því að hafa alla tíð verið áhyggjufullir, þetta ástand sé mjög einkennandi fyrir þá. Margir í þessum hópi hafa litla trú á sér og efasemdir um að þeir geti náð tökum á vandanum.

Því miður er almenn kvíðaröskun talsvert vangreind enda leita flestir sér aðstoðar vegna líkamlegra óþæginda sem vandanum fylgja, svo sem vöðvabólgu, þreytu og svefntruflunum. Fólk lítur ekki á áhyggjur sem einkenni sem krefjist meðhöndlunar. Þegar fólk kemur til sálfræðinga hafa einkenni annarra raskana oft bæst við, sem meira ber á, svo sem depurð, streita eða kvíðaköst. Í kringum helmingur þeirra sem haldnir eru almennri kvíðaröskun eru jafnframt haldnir þunglyndi og/eða annarri kvíðaröskun svo sem félagsfælni eða ofsakvíða. Til eru nokkrar útgáfur af hugrænni atferlismeðferð við almennri kvíðaröskun en útgáfan sem beitt er hjá Tölum saman miðar að því að auka óvissuþol fólks enda hefur það meðferðarform gefist vel.

tolumsaman