ÞRÁHYGGJA & ÁRÁTTA

Þráhyggja og árátta er kvíðaröskun þar sem fólk fær mjög óþægilegar, áleitnar hugsanir, hvatir um að gera eitthvað óviðeigandi eða sér eitthvað ljóslifandi fyrir sér sem veldur kvíða (þráhyggja). Það finnur sig knúið til að endurtaka tilteknar athafnir með það að marki að draga úr kvíðanum og afstýra mögulegri hættu (árátta).

Þráhyggja birtist með mjög mismunandi hætti hjá fólki en algengt er að hún snúi að einhverju af eftirtöldu:

  • smiti sem tengist óhreinindum, sýklum, sjúkdómum og efnum (ótti um að smitast af salmonellu og dreifa því til annarra o.fl.)
  • efasemdum (hvort maður hafi læst hurðinni, hvort maður elski maka sinn o.fl.)
  • ofbeldi (ótti um að skaða börn sín, ráðast á ókunnuga, keyra út af o.fl.)
  • siðferðis- og trúarlegum málefnum (að guðlasta, sjá eitthvað klámfengið fyrir sér)
  • sjá eitthvað hræðilegt fyrir sér (makann deyja í flugslysi, miss barnið fyrir bíl)
  • röð og reglu

Árátta snýr að einhverju sem fólki finnst það verði að gera, t.d. þrífa sig, athuga, telja upphátt, raða hlutum á vissan hátt. Þetta getur líka verið eitthvað sem fólk gerir í huganum, t.d. streitast á móti hugsunum, skipta neikvæðum hugsunum út fyrir jákvæðar, endurtaka orð eða setningar eða sjá hluti fyrir sér.

Þráhyggja og árátta veldur gríðarlegri þjáningu, fólk skammast sín oft fyrir vandann og óttast að vera álitið brjálað. Í raun er þetta hins vegar kvíðavandamál sem hægt er að komast yfir með réttri meðferð en hugræn atferlismeðferð eða atferlismeðferð er það meðferðarform sem mælt er með sem fyrsti valkostur. Í raun fá nær allir óboðnar og sérkennilegar hugsanir en þeir sem glíma við þráhyggju og áráttu líta þessar hugsanir mun alvarlegri augum en aðrir. Með hugrænni atferlismeðferð eru þessar hugmyndir teknar til endurskoðunar og fólk aðstoðað við að rjúfa vítahringinn eftir því sem það treystir sér til.

tolumsaman