NÁMSKVÍÐI

Flestir námsmenn finna fyrir einhverjum kvíða og óöryggi í kringum próf og mikilvæg verkefni. Hæfilegur kvíði getur verið hvetjandi og gagnlegur þegar mikið liggur við. Þegar kvíðinn er aftur á móti orðinn þrálátur getur hann haft hamlandi áhrif á frammistöðu í mikilvægum verkefnum. Erlendar rannsóknir benda til að 20% námsmanna á aldrinum 18-20 ára finni fyrir hamlandi kvíða.

Áður fyrr var gengið út frá því að námskvíða mætti rekja til lakrar námstækni. Nýlegar rannsóknir benda til að svo sé ekki. Oft liggur vandinn í skorti á trú á eigin getu. Ef námsmaðurinn hefur ekki trú á að hann geti lært eða staðist þær kröfur sem gerðar eru í náminu skiptir nefnilega engu máli hversu góða námstækni hann hefur tileinkað sér. Góð námstækni er samt sem áður mikilvæg en til að hún nýtist er mikilvægt að hlúa vel að sjálfstraustinu.

Nemendur með námskvíða geta verið á öllum skalanum þegar kemur að frammistöðu. Allt frá toppnemendum til meðaljóna. Allir eiga það þó sameiginlegt að kvíði og stundum skortur á sjálfsöryggi veldur því að þeir ná ekki að gera sitt besta og finna fyrir mikilli streitu og vanlíðan. Í mörgum tilvikum kemur þetta í veg fyrir að að þeir njóti sín í skólanum. Og jafnvel þegar gengur vel í náminu ná margir ekki að njóta árangursins heldur læðast sífellt að þeim efasemdir um eigin getu og hvernig næsta verkefni muni ganga. Þetta getur verið mjög lýjandi og getur valdið vanlíðan sem hefur ekki aðeins áhrif á líðan í skólanum heldur einnig heima fyrir.

tolumsaman