LÁGT SJÁLFSMAT

Sjálfsmat vísar til þeirra skoðana sem fólk hefur á sjálfu sér og þegar fólk hefur lítið álit á sjálfu sér er talað um lágt sjálfsmat. Lágt sjálfsmat hefur áhrif á fólk á ólíka vegu og í mismiklu mæli. Flestir finna til einhverra efasemda um sjálfa sig af og til undir vissum kringumstæðum líkt og eðlilegt er, eins og til dæmis á leið í atvinnuviðtal eða þegar hitta á verðandi tengdaforeldra í fyrsta skipti. Ef um lágt sjálfsmat er að ræða þykir viðkomandi sjálfum almennt lítið til sín koma sem leiðir til óöryggis við margs konar aðstæður. Lágt sjálfsmat hefur áhrif á hugsanir fólks en þær einkennast gjarnan af sjálfsgagnrýni og sjálfsásökun, efasemdum um sjálfan sig. Fólk einblínir á mistök eða veikleika sína en horfir framhjá styrkleikum sínum og velgengni.

Algengt er að þeim sem finnst lítið til sín koma upplifi depurð, kvíða, sektarkennd, skömm, gremju eða reiði og finni gjarnan fyrir spennu og þreytu.  Fólki finnst gjarnan erfitt er að standa á sínu og tjá skoðanir sínar, taka ákvarðanir og forðast áskoranir eða tækifæri. Algengt er að sá sem er með lágt sjálfsmat leitist við að geðjast öðrum, hafi miklar áhyggjur af áliti annarra eða dragi sig í hlé frá öðrum.

tolumsaman