KVÍÐAKÖST

Fólk getur orðið mjög hrætt eða fengið kvíðaköst í tengslum við margs konar kvíðvekjandi aðstæður en kvíðaköst lýsa sér m.a. í eftirfarandi einkennum: Aukinn hjartsláttur, svimi, sviti, skjálfti, köfnunartilfinning, erfiðleikar við að anda, óraunveruleikatilfinning og ótti við að eitthvað hræðilegt sé að gerast eins og yfirlið, köfnun, hjartaáfall, geðveiki eða dauði. Stundum er kvíðaköst hluti af vanda eins og félagsfælni eða þráhyggju-árátturöskun en stundum eru kvíðaköstin sjálfstæður vandi sem kallast ýmist ofsakvíði, skelfingarkvíði eða felmtursröskun (panic disorder). Ofsakvíði einkennist af endurteknum og ofsafengnum kvíðaköstum sem ná námarki sínu innan nokkurra mínútna, þar sem fólk finnur fyrir sterkum líkamlegum einkennum að því er virðist af tilefnislausu.

Fólk verður skiljanlega mjög hrætt við þessa upplifun og hefur áhyggjur af að eitthvað alvarlegt sé að. Það fer að óttast frekari köst eða afleiðingar þeirra og jafnvel forðast aðstæður eða athafnir þar sem frekari köst gætu gert vart við sig. Allt að 10% fólks fær eitt eða fleiri kvíðaköst á ævinni en um það bil 3,5 % fólks þróar með sér ofsakvíða, það er að segja óttann við frekari kvíðaköst (eiginlega „ótta við óttaviðbragðið”). Hægt er að ná góðum tökum á ofsakvíða á tiltölulega skömmum tíma með meðferð en sú meðferð sem mælst er til að sé fyrsti valkostur er hugræn atferlismeðferð.

tolumsaman