HEILSUKVÍÐI

Flestir hafa áhyggjur af heilsu sinni af og til. Hóflegar áhyggjur geta orðið til þess að við hugsum vel um okkur og leitum til læknis þegar við á. Það er einnig ofureðlilegt að hafa áhyggjur af heilsunni þegar við erum alvarlega veik. Þegar áhyggjurnar eru hins vegar orðnar mun meiri en heilsufar gefur tilefni til og farnar að koma niður á líðan okkar og lífsgæðum, er litið svo á að um heilsukvíða sé að ræða. Fólk getur óttast að fá hvaða sjúkdóm sem er, líkamlegan sem andlegan. Það getur einnig verið breytilegt hvaða sjúkdóm fólk óttast hverju sinni. Manneskja getur til dæmis gengið í gegnum tímabil þar sem hún óttast að vera komin með alnæmi og annað tímabil þar sem hún telur sig komna með heilaæxli. Margir hafa endurtekið leitað til lækna til að fá greiningu á þeim einkennum sem það finnur fyrir og hefur endurtekið verið sagt að það hafi óþarfa áhyggjur og  að þetta lagist af sjálfu sér. Skiljanlega leysir það ekki vandann því vissulega er eitthvað að sem ráða þarf bót á. Óþægindin sem fólk finnur fyrir eru raunveruleg, það er aðeins spurning hvað óþægindin merkja. Í raun stafar vandinn af því að meinlaus líkamleg einkenni, oft kvíðaeinkenni, til dæmis spenna og verkir, doði, svimi, hjartsláttarbreytingar, andnauð, meltingartruflanir og ógleði, eru túlkuð á þá leið að um alvarleg veikindi sé að ræða. Tilfinningaleg einkenni heilsukvíða geta verið kvíði og ótti, áhyggjur, pirringur og depurð.

Með hugrænni atferlismeðferð er fólk aðstoðað við að rjúfa vítahringi sem viðhalda vandanum og bæta þannig líðan fólks.

tolumsaman