FÉLAGSKVÍÐI

Félagskvíði lýsir sér í þrálátum kvíða í félagslegum aðstæðum þar sem fólk hefur áhyggjur af því að koma illa fyrir og að aðrir myndi sér neikvæða skoðun á því. Fólk forðast þessar aðstæður eða þraukar í þeim þrátt fyrir mikinn kvíða. Dæmi um slíkar aðstæður getur verið að tjá sig fyrir framan aðra, mæta í veislur og kynnast nýju fólki, tala við yfirmenn eða halda erindi. Ýmist geta flestar félagslegar aðstæður vakið kvíða eða aðeins afmarkaðar aðstæður eins og að spila á tónleikum. Þegar vandinn er farinn að há fólki verulega í daglegu lífi er um félagsfælni að ræða.

Félagsfælni er algengasta kvíðaröskunin og háir um 12% fólks. Helstu líkamlegu einkenni félagsfælni sem fólk óttast oft að aðrir taki eftir eru roði, sviti, skjálfti eða spennt raddbönd. Hugurinn getur tæmst og fólk átt erfitt með að einbeita sér. Tilfinningaleg einkenni félagsfælni eru m.a. kvíði, óöryggi, skömm, pirringur og höfnunartilfinning.

Fólk verður óþægilega sjálfmeðvitað og finnur oft til vanmáttar. Hægt er að ná góðum tökum á félagskvíða með meðferð en sú meðferð sem mælst er til að sé fyrsti valkostur er hugræn atferlismeðferð.

tolumsaman