FÆLNI

Afmörkuð fælni er ofsalegur ótti við tiltekin fyrirbæri eða aðstæður eins og dýr, lokuð rými eða sprautur. Fólk finnur fyrir skyndilegri skelfingu þegar það mætir því sem það óttast, þótt það geri sér grein fyrir að óttinn er meiri en eðlilegt er. Fólk sniðgengur þessar aðstæður, flýr af hólmi eða þraukar þrátt fyrir mikinn kvíða. Sá sem fælist hunda gæti til dæmis hent frá sér öllu og tekið til fótanna þegar hann verður var við hund, stirðnað upp eða forðast alfarið að dvelja utandyra þar sem hundar gætu verið.  Afmörkuð fælni er líklega algengasta kvíðaröskunin og hrjáir í kringum 12% fólks.

Þetta er jafnframt sú kvíðaröskun sem fæstir leita sér aðstoðar við, ef til vill vegna þess að mörgum tekst að hagræða lífi sínu þannig að þeir séu sjaldan útsettir fyrir það sem þeir óttast. Það er synd hve fáir leita sér aðstoðar þar sem meðferðarárangur við afmarkaðri fælni er sérlega góður og má oft ná tökum á vandanum á örfáum klukkustundum með hugrænni atferlismeðferð.

tolumsaman